Thursday, January 8, 2009

Jórdanía og Sýrland 7. - 20. september 2008

Sunnudaginn 7. september s.l. hóf 25 manna ferðahópur Jóhönnu Kristjónsdóttur ferðalag um Jórdaníu og Sýrland. Eftir mætingu á flugvelli kl. 05:15, - flug frá Keflavík til Frankfurt. Var aldeilis tíðindalaust og síðan frá Frankfurt til Amman - reyndar var ekki farin stysta leið - e.t.v. hefur ekki staðið vel í bólið þeirra Ísraelsmanna - allavega var flogið yfir Balkanlöndin, vesturhluta Svartahafs, Tyrkland og Sýrland áður en lent var á flugvelli hennar hátignar Alíu drottningar Jórdana um kvöldmatarleytið án þess að hafa flogið yfir land Ísraela og var þá liðið að kvöldi. Sömuleiðis tíðindalaust flug sem gaf manni þó tækifæri til að lesa dálítið og fremja Sudoku.

Af kunnáttu og krafti (fengið að láni frá John Fitzgerald Kennedy - sem hellti sér í störf sín "with flair and gusto".) dreif Jóhanna okkur i gegnum vegabréfaskoðun og toll og innan tíðar var allur mannskapur kominn í rútubíl. Lá nú leiðin á Hótel Jerúsalem í Amman, - hópnum parkerað í sæti í gestamóttöku hótelsins og báru gestgjafar fram dálítinn hressandi drykk - síðan lyklar - upp á herbergi - og þá í matsal hótelsins þar sem við fengum síðbúinn en ágætan kvöldverð. Síðan í háttinn eftir langan dag.

Mánudagur 8. september. Vaknað á heiðarlegum tíma og snæddur morgunverður sem var ágætlega samsettur og framborinn á hlaðborð af þeim Jórdönum. Þá lét Jóhanna túrhesta sína stíga í rútubíl ásamt jórdönskum leiðsögumanni og var nú ferðinni heitið til Jerash þar sem eru miklar rústir og gagnmerkar minjar um mektardaga Rómverja, - leikhús og leikvangur með áhorfendastæðum sem hefur verið endurgerður en presenteraði sænskur áhugamaður um Rómverja sýningu þar sem rómverskir hermenn og skylmingaþrælar ásamt hestum fyrir vögnum léku aðalhlutverk - var þessi sýning aðeins fyrir okkar hóp. Þetta var hin bezta skemmtun og í fyrsta sinn sem íslenskir túrhestar gátu með því að beina niður þumalfingri dæmt skylmingaþræl til dauða, - þó verður að segja að þetta er fullyrðing sem ég get ekki staðið við.

Eftir sýninguna hádegisverður á ágætu veitingahúsi þar á svæðinu - síðan meiri skoðun á rómverskum minjum af ýmsu tagi - makalaust hve Rómverjar voru óhemjuduglegir að byggja hof og lagnir við að reisa súlur. Eftir það var ekið til baka á hótel en ýmsir litu í bæinn en Amman er allstór borg.

Það vakti athygli mína hve byggingar í borginni voru snauðar af áhugaverðum arkitektúr, - og datt manni helst í hug að verktakar hér í Amman væru ennþá áhugasamari en íslenskir starfsbræður þeirra um að reisa snautlegar byggingar bæði hratt og í mörgum tilvikum illa. Þá er það tíska hér í Jórdaníu sem og í Sýrlandi að hafa í huga þá er maður reisir hús að gera ráð fyrir húsnæði fyrir niðja eða frændur á efri hæð - eða efri hæðum - því að steypujárnsfleinar upp úr súlum sem byrjuðu á jarðhæð og enduðu við efri brún lofts yfir fyrstu hæð var það sem helst vakti athygli manns við íbúðarhús í þeirri borg. Maður má auðvitað varla segja þetta - eða skrifa - en þessar byggingar þeirra minntu mann æði oft á Grafarholtið eða Norðlingaholtið í Reykjavík þar sem kapp hefur víðast hvar farið fram úr forsjá - og maður gæti ímyndað sér að eftir fáeina áratugi verði niðurbrot húsa arðvænlegur bissnis í Jórdaníu sem og í áðurnefndum hverfum Reykjavíkurborgar.

Jórdanski leiðsögumaðurinn stóð sig með heiðarlegum hætti en vantaði mýktina sem leiðsögumenn þurfa að hafa. Þá er Jóhanna bætti við frá eigin brjósti þá naut maður lífsins. Nóg um það - í bili.

Þá vakti athygli ferðalanga að hreinsunardeildir bæjarfélaganna í Jórdaníu og raunar Sýrlandi líka virðast uppteknar af einhverju öðru en að hreinsa með fram götum. Mér þykir líklegt að gæti orðið gott til atkvæðaöflunar hjá væntanlegum bæjarfulltrúum í þessum löndum að leggja í næstu kosningabaráttu megináherzlu á hreinsun meðfram götum. Og hið yfirgengilega rusl sem sást þar og á óbyggðum lóðum og öðru óbyggðu landi sýndist manni geta orðið gott verkefni fyrir skólanemendur að sjá um og verja til þess nokkrum dögum á hverju skólaári. - Þetta var auðvitað útúrdúr. Kvöldverður var hinn ljúfasti og gott að hvíla lúna fætur eftir fótabað. Gott hótel Jerúsalem.

Þriðjudagur 9. september. Við vöknuðum ákaflega early in the morning á þessum þriðja ferðadegi okkar. Jóhanna virðist hafa haldið að við ætluðum alla leið til Egyptalands - fórum ærið snemma af stað að snæddum morgunverði og var nú stefnan tekin á Petru sem liggur allmiklu sunnar í landinu en Amman. En þetta er drjúgur spotti - 3-4 stunda akstur upp á hásléttuna þar sem Petra er.

Landið víðast hvar hrjóstrugt - lítill gróður, strjál byggð og bersýnilega mikil fátækt meðal þess fólks sem þarna býr. Sum sé - að mestu eyðimerkurland. Við vorum komin í eitthvað yfir þúsund metra hæð þegar tók að halla undan fæti - eða hjólbörðum þó. Lá nú leið niður á við um hríð en þá komum við til borgarinnar Petru þar sem ætlunin var að gista um nóttina. En sú aldna Petra sem við ætluðum að skoða lá allmiklu neðar og liggur leið þangað í gegnum magnaða klettagjá - nokkuð bratta og hlykkjótta - en gatan niður að mestu slétt utan að hún var hellulögð að hluta og voru hellur sumsstaðar óhæfilega ójafnar.

Unnt var að taka sér far með tveggja farþega hestvagni niður og þar sem undirritaður var dálítið eftir sig í fætinum þar sem hann notar spelkuna - þá ákváðu hann og nokkrir ferðalanganna að taka sér far með þessum dáindis hestvögnum, hafa lítið fyrir lífinu og láta okkur líða vel á leiðinni niður. Við Gréta, sú eðalkona í hópi ferðalanga, völdumst saman og tókum okkur far með álitlegum hestvagni.

EN - það sem við Gréta höfðum ekki áttað okkur á var að kúskur okkar var bráðungur fullhugi með tindrandi tinnusvört augu og glettnislegt bros. Ekki vorum við fyrr sest upp í vagninn, - Gréta í miðjunni milli mín og kúsksins en ég vinstra megin, - en okkar magnaði kúskur vildi endilega fara í kapp við aðra kúska og hleypti eiginlega strax á sprett, frammúr hinum kúskunum sem ekki voru með svona tindrandi tinnusvört augu og glettnisleg bros, og skellti á skeið niður gjána og hrópaði til gangandi vegfarenda að hafa sig strax úr vegi ellegar mætti skafa þá upp úr götunni með kíttisspaða ef þeir yrðu fyrir. Gréta hélt sér í mig - og kúskinn að ég held - ég hélt mér í Grétu og til þess að hylma yfir skelfingu mína yfir þessu hlemmiskeiði hvatti ég kúskinn ákaflega og hjálpaði honum að kalla til fólksins til þess að forða blásaklausum túrhestum frá bráðum bana. Vagninn okkar dansaði á ójöfnu hellunum og var ég nokkrum sinnum nokkurn veginn viss um að vagninum myndi hvolfa þegar þurfti að taka nokkuð krappar beygjur - gjáin er sko ekki bein. En eftir svo sem - ja ég veit það ekki - 5 til 7 mínútna þeysireið vorum við alltíeinu komin niður í Petru - og stoppaði kúskur okkar framan við stóra hofið. Þá tók ég eftir því að ég hafði ríghaldið mér með vinstri hendinni - í vatnsflöskuna - sem ég hafði keypt áður en við fórum í þetta ævintýralega ferðalag. Við stigum út úr vagninum við Gréta og létum sem ekkert væri. -

Leiðsögumaður okkar hóf nú að sýna okkur staðinn, - byrjaði á stóra hofinu sem á ensku heitir The Treasury og hélt síðan áfram niður en svæðið sem Petra nær yfir er stórt. - Fengum okkur te á litlu veitingahúsi neðan við stóra hofið en héldum síðan áfram lengra og lengra niður - allt lá þetta niðurávið. Fyrir augu okkar bar geysimikið af byggingum eða öllu heldur framhliðum bygginga sem höggnar höfðu verið í klettaveggina allt um kring. Þarna var rómverskur leikvangur með miklum áhorfendastæðum, - ótal grafhýsi höggvin í bergið - og öll þessi borg eiginlega eitt ævintyri.

En þarna býr ekki nokkur maður lengur - Rómverjum entist ekki tími til að ljúka smíði allra þeirra bygginga sem þeir höfðu byrjað á - hafa líklega þurft að fara og stríða - það var alltaf svo mikið að gera hjá þeim í svoleiðis starfsemi - og luku aldrei smíðinni en síðan "týndist" borgin og það var ekki fyrr en á 19. öld sem Evrópumenn komust að því hvar þessi borg var. Bedúínar höfðu reyndar alltaf vitað það en voru bara ekkert að tala um það.

Snæddum hádegisverð á veitingahúsi eiginlega alveg neðst í borginni og hvíldumst um stund en síðan var mikið verkefni fyrir manninn með spelkuna að komast upp aftur - því nú var allt á fótinn. Hvernig það gerðist - veit ég eiginlega ekki - en að stóra hofinu komst undirritaður og við Gréta tókum okkur aftur vagn - en nú lá leiðin upp á við. Ég veit ekki hvort okkur þótti eiginlega verra þeysireiðin niður eða erfiðið hjá blessaðri skepnunni að komast með vagninn og okkur innanborðs upp alla þessa bröttu gjá. En allt hafðist þetta. -

En gönguferðirnar í Jerash og Petru voru fyrir minn hægri fót bæði langar og strangar en þetta bjargaðist allt með því að nota kvöldin til að hvíla fótinn. Og ég sem hafði spurt Jóhönnu hvort um væri að ræða miklar göngur og gaf henni skýringu á spurningunni. Nei, nei, sagði Jóhanna. Þetta eru svona smáspottar!

Gisting á ágætu hóteli í Petra. Hlaðborð til kvöldverðar - ágætt en maður var farinn að sakna þess dálítið að hafa ekki fjölbreyttara úrval á hlaðborðinu en raun bar vitni.

Miðvikudagur 10. september. Að snæddum hefðbundnum morgunverði fórum við frá Petru yfir hásléttuna í áttina að Dauða hafinu. Eyðimerkurland, sáralítið gróðurlendi og lítil byggð en það litla sem var bar merki fátæktar, víðast hvar. Leiðin frá Petru að Dauða hafinu gerðist því hrikalegri sem nær dró, - klettar, gjár, klettagjár, tindar, snarbrattar brekkur á köflum - urð og grjót – lítill gróður. Við stoppuðum reyndar á einum stað þar sem útsýni er gott af hásléttunni yfir dal nokkurn og yfirgefna litla borg í dalnum. En, - nú fór að sjást til Dauða hafsins og það grillti í ströndina og fjöllin í Ísrael hinum megin hafsins en mistrið spillti þó útsýni nokkuð.

Þegar komið var niður af hásléttunni niður undir Dauða hafið þá áttaði maður sig á því að það er tæpum 400 metrum neðan sjávarmáls þannig að við vorum búin að lækka flugið úr rúmlega 1000 metrum yfir sjávarmál í tæpa fjögur hundruð metra undir sjávarmáli. Þó nokkuð breið ræma er milli hásléttunnar Jórdaníumegin og hafsins og er þar víðast hvar frjósamt land, mikil svæði með akurlendi og trjálundum. All mikil byggð og virtist manni efnahagur þarna snöggtum betri en uppi á hásléttunni.

Hitinn í ferðinni hafði verið ca 35 og upp í 40 stig og þarna við Dauða hafið var mikill hiti en rútan okkar loftkæld þannig að nokkuð vel tókst manni að standast hann. Við fórum nú sem leið lá meðfram Dauða hafinu til norðurs og stoppuðum við einhverja hlaðna styttu eða styttur ofan vegarins en ég man ekki með nokkru móti til hvers þær hefðu verið reistar og námum staðar nokkru fyrir neðan helli þann í fjöllunum þar sem Lot hafði fyrir margt löngu haft fyrir íverustað og að mig minnir barnað nokkrar konur. Var í þessu efni vísað til Gamla testamentis en Þór Magnússon var vopnaður þeirri bók og lét okkur nokkrum sinnum hafa texta úr því, - þegar tilefni gafst til. Þótti ferðalöngum flestum þetta nokkuð interessant en stígur nokkuð langur lá upp í hellinn. Við vorum nú samt nokkur sem létum okkur fátt um finnast og biðum þar sem rútan okkar nam staðar og virtum fyrir okkur útsýnið og snæddum nestið sem hótelið í Petru hafði látið okkur hafa með.

En auðvitað voru þetta söguslóðir – Gamla testamentið hefur ýmsar sögur að segja frá lífinu fyrir 2-3000 árum en þetta er eins og með Njálu:- Skemmtileg bók, - spennandi saga en ekki reyna að segja okkur neitt varðandi sannleiksgildið. Njála er skemmtilegur skáldskapur sem vafalaust er að einhverju leyti byggður á munnmælasögum, - ýmsir sögustaðanna vel þekktir en höfundur hefur aldeilis látið gamminn geisa og bætt verulega í með tilraunum til gerðar riddarasagna í seinni hluta bókarinnar. Nóg um það, - enginn þarf að vera mér sammála. -

Síðan var haldið áfram og brátt komið að Marriott hótelinu við Dauða hafið. Þetta er hið mesta fyrirmyndar hótel og þótti ýmsum rétt að bregða sér í bað í Dauða hafinu og þar á meðal undirrituðum. Ég hef alltaf haft efasemdir um ágæti saltpækla nema þá til að geyma í saltkjöt og var þessi kenning mín rækilega staðfest við þennan stærsta saltpækil í heimi. Mér þótti aðstaða ekki góð - ótal tröppur þurfti að ganga niður að vatnsborðinu og mér þótti á skorta þægilegan máta að komast í vatnið (fyrirgefið, saltpækilinn) en tókst nú samt. Jú það var rétt - maður flýtur í pæklinum en mér fannst hann fremur ógeðslegur, saltpækilslegur og maður varð allur klístraður þegar maður kom upp úr vatninu. Eins hvers konar leir eða kísill er á botninum og maður getur borið á sig og sjálfsagt þykir ýmsum þetta gott og vafalaust hafa leirinn og kísillinn góð áhrif á fólk með húðsjúkdóma. Mér þóttu hins vegar kynni mín af hafinu ekki með þeim hætti að ég heillaðist af því. Þá tókst mér að detta í næstsíðustu tröppunni að vatnsborðinu og bætti sú bylta ekki skap mitt og viðhorf varðandi pækilinn. Þá verður maður að drífa sig í sturtu til þess að þvo af sér leðjuna og klístrið strax þegar maður kemur upp úr pæklinum.

Well - þetta var ekki fyrir mig! Og síðan ganga upp þessar sömu ótal tröppur að sundlaugum hótelsins sem voru hinar prýðilegustu. Sólbað og hvíld á laugarbarmi - síðan ágætur kvöldverður.

Fimmtudagur 11. september. Morgunverður á Marriott var ágætur en nú var snúið frá Dauðahafinu og stefnt til Nebo fjalls þar sem Móses (sem heitir því skemmtilega nafni MUSA á arabisku) leit yfir lönd sín og þótti líklega harla góð enda í þann tíð auðvitað miklu meiri skógur í landinu. Þetta var fallegur og í raun óviðjafnanlegur staður - vítt útsýni – ef mistrið spillti ekki fyrir - dálítið svalara þarna uppi. Einnig lítið sögulegt safn, ágætt. Þór las fyrir okkur texta úr Gamla testamentinu sem hæfði tilefninu.

Þá var stefnt til Amman en gerður nokkur stans á vernduðum vinnustað fatlaðra og var satt að segja magnað að sjá hve þetta fatlaða fólk lagði sig mjög fram um að skila sem beztu handverki. Innan við verkstæðið var verzlun þar sem fáanlegar voru ýmsar vörur og minjagripir sem vöktu athygli okkar ferðalanganna.

Til baka á Hótel Jerúsalem og komið þangað um fjögur leytið - sturta og hvíld en einnig stuttur túr með taxa í miðbæinn sem interesseraði mig ekki. Undarlegur skortur á byggingalist í þessu landi og miðbærinn ekki sérlega interessant. Kvöldverður þar sem Stefanía Khalifeh ræðismaður Íslands í Jórdaníu kom og snæddi með okkur og fræddi okkur um ýmislegt varðandi Jórdaníu og flóttamenn sem í landinu eru – bæði frá Palestínu og Írak. Mjög ánægjulegt kvöld.

Föstudagur 12. september. Lagt af stað til Damaskus um um hádegisbil og var nú ekið um frjósöm lönd en landslag ekki tilkomumikið. Eftir nokkra bið á landamærum meðan jórdanski leiðsögumaðurinn og Jóhanna gengu frá áritunum á vegabréf var jórdanski leiðsögumaðurinn síðan kvaddur. Hann var bersýnilega fagmaður en einhvern veginn náði hann aldrei því flugi í frásögnum sínum að maður hrifist með. Jóhanna bætti hann mjög upp með látlausri, skipulegri frásögn, kryddaðri smásögum og þessum lún húmor og mónótón rödd sem hún hefur. Jæja, áfram um frjósama jörð – mikla ræktun - sveitir og smábæi og til Damaskus. Byggingalist í Sýrlandi bersýnilega á öðru stigi en í Jórdaníu. Komið síðdegis á Hótel Semiramis í miðborginni þar sem gist var meðan dvalið var í Damaskus - aldeilis prýðilegt hótel. Litið á borgina í nágrenni hótelsins fyrir kvöldverðinn sem var ágætur en ekki interessant..

Laugardagur 13. september. Fyrsti heili dagurinn í Sýrlandi - morgunverður en síðan gengum við á handverksmarkaðinn í miðborg Damaskus þar sem ýmsa vandaða handverksmuni gat að líta og kaupa - bæði klæðnað og skartgripi.

Við ókum upp á Kassioun-fjallið þar sem er gott útsýni yfir borgina, fórum í gamla bæinn og snæddum hádegisverð á ágætu veitingahúsi einhvers staðar við þrönga götu, eftir ótal ranghala, öngstræti og tröppur. Þetta veitingahús var rétt við Omyyad moskuna sem er eitt gríðarstórt, herlegt og fornt guðshús í þessari eldfornu borg. Nú sagði ég fornt – sem er auðvitað satt - en hitt er líka satt að moskan brann oftar en einu sinni og alvarlegasti eldsvoðinn varð árið 1893 þegar næstum allt brann sem brunnið gat. Sum sé:- nokkrum sinnum hefur þurft að endurbyggja moskuna og síðasta endurgerð – eftir 1893 – skilaði því húsi sem við sáum en byggingin, turnarnir, torgið og innviðir voru með þeim hætti að maður er ekki hissa á að moskan sé hátt skrifuð meðal múslima. En önnur trúarbrögð eiga inni í moskunni - fyrsti hluti hennar er byggður all löngu áður en Múhammeð fann upp Múhameðstrú. Gyðingar, kristnir og fleiri trúarbrögð áttu þarna inni. - Til þess að særa ekki blygðunarkennd sanntrúaðra múslima máttu konur okkar klæðast kuflum til þess að hvergi sæist í bert hold. Þetta var eftirminnileg heimsókn. Þá farið í hinn kristna hluta gamla bæjarins og litið við í kapellu Ananíasar þess er bjargaði Sál - þeim sem síðar varð Páll postuli – undan óvinum hans. Kapellan er neðanjarðar og mjög svo forvitnilegt hús. Þór las úr Gamla testamenti.

Eftir langan dag, - heim á hótel, í sturtu og fótabað, hvíld og síðan kvöldverður. - Sýrlenski leiðsögumaðurinn okkar hafði sagt okkur margt á þessum degi og þar sem Jóhanna áleit að þyrfti að bæta við - eða leiðrétta ofurlítið – þá tók hún til máls við góðan róm okkar túrhesta.

Sunnudagur 14. september. Morgunverður með eðlilegum hætti - en satt að segja finnst mér morgunverður sá sem á hlaðborðum var í Jórdaníu og Sýrlandi heldur einhæfur og maður hafði tendens til að horfa dálítið þreytulega á hlaðborðið. (Þó ekki með sama hætti og Eggert Stefánsson söngvari gerði á Waldorf Astoria fyrir margt löngu er hann gekk inn í mótttökuna og síðan matsalinn þar sem þjónar bukkuðu sig og beygðu fyrir þessum fjallháa stórglæsilega manni með arnarnefið og buðu söngvaranum sæti og var færður matseðill sem hann leit á og renndi augunum upp og niður hlemmiglásirnar sem þar gat að líta en lagði síðan matseðilinn frá sér, ögn þreytulega, og sagði:- “Molakaffi, takk!”) Auðvitað var hægt að fá sitt af hverju að snæða – en næstum alltaf það sama. Þeir þurfa að æfa sig dálítið meira í móttöku ferðamanna og læra að kæta bragðlauka þeirra.

Þennan dag var ætlunin að heimsækja kastalann Krak de Chevaliers sem er gagnmerkur kastali krossfara frá því um 1100. All löng ferð með rútunni okkar og sýrlenski leiðsögumaðurinn og Jóhanna fræddu okkur um margt á leiðinni en er til kastalans kom blasti við okkur glæsileg forn bygging og langar tröppur upp að ganga til þess að komast í herlegheitin þar sem í eina tíð voru bækistöðvar nokkurra þúsunda krossfara ásamt tilheyrandi þjónustuliði.

Við vorum leidd um allskonar virkisgarða, síki (sem nú vou auðvitað þurr) vistarverur af ýmsu tagi þ.m.t. eldhús, bakarí, geymslur, vistarverur krossfara, kapellu, auðvitað höfðu krossfarar lagt vatnsleiðslu o. s. frv. Það er ævintýralegt hve vel kastalinn er varðveittur en hann var ekki mjög lengi undir yfirráðum krossfara. Foringjar múslima náðu honum á sitt vald með brögðum - og höfðu krossfarar sig á braut - máttu hverfa úr kastalanum en margir þeirra fóru aldrei heim heldur settust að í nærliggjandi héruðum og undu hag sínum vel, - vildu ekki snúa til baka.

Eftir mikla hringferð um mannvirkið undir leiðsögn okkar sýrlenska leiðsögumanns endaði ferðin á þeim stað þar sem eitt sinn var kapella krossfara en hentar nú sem bænastaður múslima. Ferðinni um kastalann lauk með því að ungur múslimi kyrjaði múslimskan bænasöng.

Snæddur hádegisverður á veitingahúsi í nágrenninu en þar réð húsum hinn vaskasti vert, mikill ákafamaður um framburð veitinga og voru tilburðir oft og tíðum glæsilegir og voru hvorki spöruð spor né rödd. Hádegisverð og drykki bar hann fram með miklum tilþrifum og var á allan hátt mikill ákafamaður um ánægju og velferð gesta sinna og lét það óspart í ljós með tilburðamikilum hreyfingum og hárri röddu.

Eftir velheppnaðan hádegisverð var farið til baka til Damaskus en á miðri leið lét Jóhanna stöðva rútu, rak allan mannskapinn út, - fór með hann hann út í kjarrið sem var nálægt veginum, - kvaðst hafa fengið nokkrar flöskur af göróttum drykk að gjöf frá veitingamanni þeim hinum raddsterka og bauð upp á mjöðinn. Reyndist mjöðurinn vel og luku túrhestar miðinum á skammri stundu. Þótti þetta vel til fundið.

Nú litu sumir í búðir, aðrir hvíldust. Kvöldverður snæddur með eðlilegum hætti (hvað sem það nú þýðir).

Mánudagur 15. september. Morgunverður en síðan gengið frá hóteli yfir á markaðinn í gamla bænum. Komið var við hjá Hassahn en sá þykir höndla betur með dúka en flest annað fólk í borginni Damaskus. Ýmsir verzluðu drjúgt hjá Hassahn og varð rífandi gangur í viðskiptum hjá honum og endaði verzlunin á því að Hassahn bauðst að senda birgðirnar á Hótel Semiramis til þess að viðskiptavinir þyrftu ekki að bera herlegheitin um borg og bý.

Gengum síðan meðfram moskunni miklu og í veitingahús sem þar er í öngstræti, í kjallara nokkrum og er býsna góður veitingastaður (hvað sem það nú þýðir). Fengum okkur drykki en síðan hurfu konur í frekari verzlunarleiðangur að ég held. Við Ólafur ákváðum að snæða hádegisverð á staðnum og var hann ljúffengur. Tók okkur tvo tíma að snæða og spjalla en þó verður að segja satt um það að þarna var í eina skiptið í öllu ferðalaginu reynt að láta okkur greiða fyrir meir en við keyptum. Það tókst auðvitað ekki, - þrautþjálfaður úr þorskastríðum lét Ólafur veitingamann ekki vaða ofan í sig.

Á heimleið höndluðum við dálítið og tókst mér að finna gullfallega silfurkrossa handa tveimur sonardætrum mín á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Heimleiðis á hótel yfir stræti og torg, - síðan hvílt sig, farið í kalda sturtu, rölt um bæinn og síðan hvöldverður.

Þriðjudagur 16. september. Nú var lagst í frekari ferðalög og haldið af stað eftir sama morgunverðinn og áður og eftir allmikinn akstur um gróðursælar sveitir og smábæi var áð í fjallabænum Malulah. Efst í bænum – eiginlega uppi á fjalli - er klaustur þeirra heilögu manna Sergiusar og Bakkusar - eldgömul kirkja - með litlum kapellum og ölturum - lítill salur þar sem við fengum okkur sæti á bekkjum og hlýddum á okkar sýrlenska leiðsögumann flytja ágæta tölu um staðinn, - Teklu þá sem hingað kom á flótta undan ofsækjendum sínum - bænahald var þarna á arameisku – tungumáli Krists. - Þar í kirkjunni var gamalt málverk af kvöldmátíðinni - með Júdas skömmustulegan með skjóðuna sem hann geymdi hina þrjátíu silfurpeninga í – og einnig var krossfestingin í sama málverkinu og mun þetta líklega einsdæmi að báðir atburðir séu skráðir á sama málverkinu. -

1. Við gengum síðan niður í bæinn aftur – Malalah – eftir stíg í fjalla
1.

skarðinu sem opnaðist fyrir Teklu er hún flýði hingað. Þorpið Malulah er lítill fallegur bær – hitinn minni þar sem hann er hátt uppi í fjöllunum - þarna eru sumarhús ýmissa fjáðra Sýrlendinga. Aftur ekið af stað og nú í áttina til Abbasid eyðumerkurbúðanna en nú var landið orðið eyðilegra - en áður en þangað kom var áð á Bagdad Café 66 - að mig minnir! - en þar var borinn fram ágætur hádegisverður á þessum veitingastað þarna úti í eyðimörkinn en þarna ráku bedúínar bæði veitingastað og verzlun m.a. með afurðir þeirra sjálfra og þarna keypti ég tvo blómavasa handa dætrum mínum tveimur.

Haldið áfram og eftir all mikinn akstur um eyðimörkina var komið til Abbasid búðanna en þar var okkur næturstaður - flestir gistu í tjöldum í eyðimörkinni en þar eð pláss í tjöldum var aðeins fyrir rúmlega tuttugu og urðum við fjögur að gera okkur að góðu að gista á “hótelinu” þar sem móttakan var og matsalurinn.
Herbergi mitt var ærið fornfálegt - með sléttu steingólfi - um 3ja metra lofthæð - stórt með baðherbergi innaf sem einnig var ærið fornfálegt með steingólfi en hafði þann ótvíræða kost að sturtubotninn var svo ryðgaður að hann var ekki háll. Hurðin að herberginu var með heldur fornfálegri læsingu og mátti ég teljast annaðhvort heppinn eða ákaflega útsjónarsamur þegar mér tókst að opna dyrnar hvort sem ég var á leið út eða inn. En rúmið var gott, - loftið sæmilega svalt og ég svaf eins og steinn.

Eftir kvöldverð fórum við flest í bedúínatjald sem var þarna við hliðina á en þeir bedúínar efndu til tónlistar- og danskvölds – líklega í tilefni af komu okkar. Var þetta hin bezta skemmtun – mannskapurinn dansaði í bedúínatakti eftir þeirra leiðsögn en tónlistin var hins vegar ekki mjög merkileg - “músíkin” þeirra í eyðimörkinni telst vart fjölbreytileg og mátti um það deila hvort “hljóðfæraleikarar” notuðu tvo eða þrjá tóna - en þeir héldu uppi ágætri skemmtan um hríð - og buðu upp á te.

Miðvikudagur 17. september. Eftir fábreyttan morgunverð lögðum við af stað til Palmyra - ekið um eyðimörkina en þó voru sumsstaðar vinjar þar sem borað hafði verið eftir vatni og því veitt á akurlendi. - Palmyra er ævintýraleg borg - merkilegasti sögustaður Sýrlands - samgöngumiðstöð fyrir verzlun frá Austurlöndum með silki, krydd og annað fínerí og einnig fyrir verzlun við Arabaflóann. Rómverjar hafa hér aldeilis lagst í byggingalist og er sá hluti borgarinnar sem uppgrafinn hefur verið alveg sérstaklega merkilegur með öllum sínum súlum, hofum, leikhúsi, baðhúsum, sundlaugum o.s frv.

Nú var heitt og sólin skein í heiði og mátti segja að þetta væri einn erfiðasti dagurinn fyrir ýmsa. En við gengum þarna um stræti og torg og nutum lífsins í borg sem átti tilveru allt frá tvö þúsund árum fyrir Krists burð en tók að hnigna á 3. öld eftir Krist. Til eru miklar sagnir um Zenobiu drottningu sem vildi hafa Palmyra fyrir sjálfstætt ríki en komst ekki áfram með þær hugmyndir fyrir Rómverjum. Mikið verkefni er eftir við uppgröft á þesum slóðum.

Við gistum á Hótel Heliopolis - sem var ágætt - matur í lagi en í sama dúr og annarsstaðar í Sýrlandi. Undir kvöld var ekið upp á fjall fyrir ofan bæinn og þaðan var útsýni gott yfir Palmyra. Sölumenn – sem flestir voru ungir drengir - angruðu okkur dálítið en einn þeirra - varla nema 12 – 13 ára - gafst upp á að selja mér varning sinn en benti þess í stað á næluna sem ég hafði í barmi en á henni var íslenski fáninn. Ég tók hana af mér og gaf honum og var hann hinn ánægðasti með “viðskiptin” - enda ekki á hverjum degi sem innfæddir geta skartað íslenska fánanum. Sólin gekk til viðar, - bílstjórinn okkar bauð upp á te og smákökur þarna uppi á fjallinu – það var ljúft. - Síðan ekið á hótel, - í kvöldverð – og síðan til hvíldar.

Fimmtudagur 18. september. Morguninn eftir skoðuðum við svokallaða greftunarturna í nágrenni Palmyra. Merkileg fyrirbrigði – mikið hafa þeir haft fyrir því að sjá ættingjum fyrir sómasamlegum legstað þegar þeir hurfu inn í eilífðina.

Síðan til baka til Damaskus – komum stuttlega við á Bagdad Café 66 og fengum okkur te. Komið til Damaskus síðdegis og við gistum aftur á Hótel Semiramis.

Ég fékk tvær eðalfrúr úr hópnum til þess að aðstoða mig við innkaup á sjölum sem ég hugðist gefa dætrum mínum og tengdadætrum og var farið á handverksmarkaðinn og heppnuðust þau innkaup ákaflega vel en þær Vilborg og Elín lögðu sig allar fram við ráðleggingar og sjalakaupmaður lagði sig ákaflega í framkróka við að kynna vöru sína –ef maður sýndi áhuga á einhverju sjali hafði hann óðara tekið það sveiflað listlega yfir axlir sér og gerði manni ljósa grein fyrir öllum þess kostum. Það þarf ekki að fjölyrða um það að öll fjögur sjölin keypti ég hjá þessum eðalkaupmanni með ráðleggingum og aðstoð þeirra dáindiskvenna Elínar og Vilborgar. - Ennfremur keypti ég nokkuð af skartgripum handa kvenskyns barnabörnum og barnabarnabarni. Var þar ennfremur um að ræða fínustu eðalkaupmenn. - Rölt um bæinn. Kvöldverður.

Föstudagur 19. september. Eftir morgunverð var gengið til Þjóðminjasafnsins í Damaskus en það er eitt mikið og herlegt safn, gríðarstórt með ótölulegan fjölda fornminja, mörg þúsund ára gamalla og fengum við leiðsögn um hluta safnsins en ef nokkuð er erfitt á ferðalagi sem þessu þá er það skoðun safna - enda hitti Þór fyrrverandi þjóðminjavörður naglann á höfuðið þegar hann kvað upp úr með að safnferðir ættu ekki að vera lengri en sosum ein og hálf klukkustund - eftir það væri athygli gestanna farin út í veður og vind. Vanur maður og mælti satt og rétt. En það sem við sáum var margt mjög athyglisvert - myndir og styttur alls konar - sumar allt að fjögur þúsund ára gamlar.

Eftir safnferð var snæddur hádegisverður á veitingahúsi við safnið og síðan var ekki meira á dagskrá þann daginn nema skoða bæinn, fara í búðir og þess háttar. Við Sigríður Guðmundsdóttir og Ólafur Egilson tókum okkur taxa í hverfi kristinna, gengum þar um stræti og torg og komum aftur í kapellu heilags Antoníusar. Það var ágætt en við fórum síðan til baka á hótel.

En um kvöldið var mikill dinner í boði konsúls Íslendinga í Sýrlandi sem ég man ekki lengur hvað heitir og hans ektakvinnu. Vorum sótt í búss og sátum dýrðlegan kvöldverð í glæsilegum húsakynnum hans og var ákaflega vel gert við okkur í mat og drykk. Ólafur stóð upp og hélt stutta ræðu og afhenti þeim konsúlshjónum gjafir frá Íslendingum. Sátum í góðum fagnaði til kl 10 eða rúmlega það - ekið heim á Hótel Semiramis.

Laugardagur 20. september. Lokadagur ferðalags. Vaknað ákaflega snemma – í morgunverð og síðan út á flugvöll – fyrst til Ammam og síðan yfir Ísrael til London. Tíðindalaust flug. Þurftum að bíða eftir flugi til Íslands nokkrar klukkustundir - fórum ekki af flugvelli en spjölluðum yfir kaffi og ýmsir verzluðu eitthvað.

Flug til íslands sömuleiðis tíðindalaust. Ferð lauk á tólfta tímanum 20. september.

P.S.
Þegar ég kvaddi Jóhönnu lofaði ég henni að ég skyldi skrifa dagbók um ferðalagið. Það gengur eiginlega ekki eftir þar sem ég týndi minnisblöðum mínum yfir seinni vikuna með einhverjum hætti. Þess vegna getur vel verið að tímasetningar séu ekki allar réttar en það verður að hafa það. Ég ætlaði að vera búinn að þessum skriftum miklu fyrr en vegna tíðra bilana í tölvu minni hafðist það ekki af fyrr en í dag 15. desember.

Ferðalagið var vel skipulagt af hendi Jóhönnu Kristjónsdóttur sem á allan heiður skilið fyrir framgöngu sína. Hún er úrvalsgóður leiðsögumaður og bætti þá félaga þann jórdanska og sýrlenska vel upp. Hún var vakin og sofin yfir velferð okkar en það þekkir enginn nema sá sem í hefur komist hve mikil vinna getur verið fólgin í fararstjórn í 14 daga. Stundum náðum við ekki öllu því sem hugmyndin var að sýna okkur en ef það er eitthvað sem þarf að gæta sín á í svona ferðalagi þá er það hæfilega mikil leiðsögn fararstjóra og síðan tíminn sem ferðamaðurinn þarf fyrir sjálfan sig í friði fyrir leiðsögumanni. Svona ferðalag í heitum löndum eins og Sýrlandi og Jórdaníu er erfitt og þess vegna verður dagskrá að vera hæfileg. Og stundum er betra að sleppa einhverju fremur en að ganga fram af þreyttum ferðalöngum. En þetta skilja e.t.v. ekki allir.

Hótel voru ágæt en matur eins og að framan er sagt dálítið einhæfur. Leiðsögumenn góðir – þó var sá sýrlenski all miklu betri en sá jórdanski.

Hafðu beztu þakkir fyrir þinn hlut Jóhanna - kona ársins - til hamingju.

Kveðja,

Pétur J.


.

No comments:

Post a Comment